Skip to main content Skip to footer

Helstu upplýsingar um Skólahljómsveit Kópavogs

Skólahljómsveit Kópavogs var stofnuð á haustmánuðum 1966. Afmælisdagur sveitarinnar er þó ávallt miðaður við fyrstu tónleikana sem haldnir voru við Kársnesskóla þann 22. febrúar 1967. Stofnandi sveitarinnar var Björn Á. Guðjónsson trompetleikari og stjórnaði hann hljómsveitinni óslitið og af miklum dugnaði fram til ársins 1993 þegar Össur Geirsson tók við stjórninni.

Að jafnaði eru um 175 hljóðfæraleikarar í Skólahljómsveit Kópavogs og er þeim skipt í þrjár sveitir eftir aldri og getu.

Hljómsveitir

Hljómsveitirnar gegna veigamiklu hlutverki í bæjarsamfélaginu og koma þær oft fram á hátíðum og athöfnum í bænum. Að jafnaði koma sveitirnar fram um 90 sinnum á ári, oftast innan skólakerfisins en af öðrum föstum viðburðum má nefna skrúðgöngur á 17. júní og sumardaginn fyrsta. Einnig er vinsælt að kalla hljómsveitirnar til við ýmiskonar vígslur, fyrstu skóflustungur, íþróttaviðburði og aðrar hátíðir.

Tónleikar

Haldnir eru tvennir stórir tónleikar á hverjum vetri sem við köllum haust- og vortónleika. Á hausttónleikunum er efnisskráin gjarnan í léttari kantinum og með ákveðnu þema. Þemu undanfarinna ára hafa m.a. verið Íslensk tónlist, Jazz-og blús og Latin-tónlist. Vortónleikarnir 2017 voru óvenjuveglegir vegna 50 ára afmælis sveitarinnar og voru þeir haldnir fyrir fullu húsi í Eldborgarsal Hörpu.

 

Tónleikaferðir

Allar sveitirnar fara í tónleikaferðir eða æfingabúðir innanlands. Elsta sveitin fer í tónleikaferðir til útlanda annað hvert ár. Einnig fór B sveitin í ferð árið 2007, til Gautaborgar. Síðast var farið í júní 2022 í Svartaskóg í Þýskalandi. Þar ferðuðumst við um í 9 daga, héldum fjölmarga tónleika og skoðuðum heilmarga staði.

Ferðasjóður

Til að auðvelda öllum nemendum að komast í ferðir hljómsveitarinnar er reglulega safnað í ferðasjóð sem hefur það hlutverk að niðurgreiða tónleikaferðirnar. Hér má sjá reglur ferðsjóðsins.

Húsnæði

Skólahljómsveitin flutti í splunkunýtt húsnæði í viðbyggingu við Álfhólsskóla í byrjun mars 2020. Hljómsveitin var þar áður í Digranesi frá hausti 1999. Lengst af hafði hún aðstöðu í kjallara íþróttahúss Kársnesskóla og um tíma var hún í gömlu bóndabýli sem stóð við Ástún 6.

Á æfingu í Tónhæð

Innritun

Innritun fer fram á vorin og er opin börnum í 3. bekk grunnskóla Kópavogs. Ávallt er biðlisti eftir plássum og ekki komast allir að sem sækja um. Upplýsingar um innritun koma á heimasíðuna í maí.

Spilað á vetrarhátíð 2023

Skólagjöld

Skólagjöld fyrir haustönn 2023 eru 26.487 krónur. Hægt er að nýta frístundastyrk Kópavogsbæjar á móti námsgjaldinu.

Hljóðfæraleiga

Nemendur geta fengið leigð þau hljóðfæri sem þeir læra á. Þó er hvatt til þess að nemendur eignist sín eigin hljóðfæri fyrr en síðar. Hljóðfæraleiga fyrir haustönn 2023 eru 5.636 krónur.