Skip to main content Skip to footer

Kennarar við Skólahljómsveit Kópavogs:

Eiríkur Rafn Stefánsson

Eiríkur Rafn Stefánsson (1988) byrjaði að læra á trompet við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar átta ára gamall hjá Einari Jónssyni. Síðar lá leiðin í Tónlistarskóla FÍH til að leggja stund á rytmískan trompetleik ásamt kennarafræðum við kennaradeild skólans þar sem Sigurður Flosason, Ólafur Jónsson, Eiríkur Örn Pálsson og Snorri Sigurðarson voru hans kennarar. Haustið 2011 sótti Eiríkur skiptinám við Tónlistarháskólann í Malmö þar sem hann sat tíma hjá meðal annars Anders Bergcrantz við djassleik, Bo Nilson í trompettækni og Håkan Andersson við útsetningar. Eftir að hafa lokið kennaraprófi og framhaldsprófi í rytmískum trompetleik vorið 2013 fór Eiríkur að kenna við SK. Haustið 2015 hóf Eiríkur djassútsetninga- og tónsmíðanám við Tónlistarháskólann í Amsterdam, undir handleiðslu Jurre Haanstra. Eiríkur sótti einnig trompetnám sem aukafag þar sem kennarar hans voru Jan Wessels (djass) og Jan Oosthof (tækni). Vorið 2019 lauk svo Eiríkur B.Mus prófi í útsetningum og tónsmíðum. 

Eiríkur hefur verið virkur trompetleikari, útsetjari og stjórnandi, bæði hér heima sem og erlendis. Hann hefur meðal annars spilað með Stórsveit Reykjavíkur, Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar, hljómsveitinni Valdimar og Lúðrasveit Hafnarfjarðar, auk þess að spila í hinum ýmsu verkefnum og upptökum. Sem útsetjari og stjórnandi hefur hann meðal annars skrifað fyrir og stjórnað tónleikum með Stórsveit Reykjavíkur, gert útsetningar fyrir Stórsveit Tónlistarhússins í Amsterdam (Jazzorkest van het Concertgebouw), Nemendastórsveit Hollands (Nederlands Jazzorkest), Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Samtök Íslenskra Lúðrasveita.

Ásamt því að kenna á trompet við Skólahljómsveit Kópavogs kennir Eiríkur fræðigreinar við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Menntaskóla í tónlist og Listaháskóla Íslands.

Kennslugreinar:

Trompet

Hafa samband

Netfang: eirikurrs@kopavogur.is